Orkustofnun hefur undanfarið veitt bæði leyfi til efnistöku af hafsbotni og eins rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni.

Þannig fékk Björgun leyfi til efnistöku af hafsbotni á þremur svæðum í Hvalfirði í lok júlí. Um var að ræða um 28 hektara efnistökusvæði allnokkru austnorðaustan við Brekkuboða, um 59 hektara efnistökusvæði vestan og suðvestan við Laufagrunn og um 122 hektara efnistökusvæði út af Kiðafelli í Kjós, samtals um 209 hektarar.

Þá veitti Orkustofnun Björgun og Íslenska kalkþörungafélaginu leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Miðfirði, Hrútafirði og Steingrímsfirði í Húnaflóa um miðjan ágúst. Leitar- og rannsóknasvæðin fimm eru í vestanverðum Miðfirði, austan- og vestanverðum Hrútafirði, sunnanverðum Steingrímsfirði og út af Drangsnesi og umhverfis Grímsey við norðaustanverðan Steingrímsfjörð.

Groupe Roullier fær leyfi til rannsókna á tveimur stöðum

Franska fyrirtækið Groupe Roullier fékk leyfi frá Orkustofnun til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í innanverðu Ísafjarðardjúpi í byrjun ágúst. Leitar- og rannsóknasvæðið afmarkast af línu dreginni frá Ögurnesi í norðvesturhorn Æðeyjar og þaðan í land á Snæfjallaströnd. Að auki er leit og rannsóknir ekki leyfðar sunnan Hrúteyjar í Mjóafirði, í Vatnsfirði, í Reykjarfirði, sunnan Arngerðareyrar við Ísafjörð og framan við Kaldalón.

Á sama tíma fékk Groupe Roullier einnig leyfi til leitar og rannsókna á kalkþörungaseti á hafsbotni í Miðfirði og Hrútafirði í Húnaflóa. Leitar- og rannsóknasvæðin þrjú eru í vestanverðum Miðfirði og austan- og vestanverðum Hrútafirði.