Orkustofnun hefur gert athugasemdir við drög verkefnisstjórnar þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Stofnunin segir að í drögunum taki verkefnisstjórnin hins vegar aðeins til umfjöllunar þriðjung þeirra virkjunarkosta sem lagðir hafi verið fram af Orkustofnun, þ.e. 27 af 82 kostum.

Í fréttatilkynningu frá Orkustofnun segir að á kynningarfundi í Hörpu 31. mars sl. hafi endurtekið verið látið að því liggja í máli og myndum að aðeins virkjunarhugmyndir virkjunaraðila, orkufyrirtækja eða þeirra sem hefðu áform um að reisa eða reka virkjanir stærri en 10 MW væru til umfjöllunar. Ekki hefi verið minnst á þá virkjunarkosti sem Orkustofnun hafði lagt fram að eigin frumkvæði og hafi þeim öllum, 32 talsins, verið ýtt út af borðinu eins og þeir hafi aldrei verið lagðir fram. Stofnunin mótmælir þessari málsmeðferð verkefnisstjórnar.

Algerlega horft fram hjá afar mikilvægum þáttum

Stofnunin lýsir sérstökum áhyggjum vegna þess að ljóst er talið að í vinnu verkefnisstjórnar hefur algerlega verið horft fram hjá mörgum afar mikilvægum þáttum, svo sem framlagi Íslands til þess að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti á heimsvísu með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, nauðsynlegu orkuöryggi á Íslandi, áhrifum á samfélag og efnahag, möguleikum einstakra byggðarlaga til orkuskipta og uppbyggingar, og þannig mætti lengi telja.

Það er að mati Orkustofnunar óásættanleg málsmeðferð að horfa fram hjá áhrifum nýtingar og verndar á efnahag og samfélag. Ákvörðun um verndun getur haft afar mikil áhrif, ekki síður en orkunýting. Því er það mat stofnunarinnar að málsmeðferð verkefnisstjórnar sé ófullnægjandi og að flokkunin í skýrsludrögunum sé óásættanleg í ljósi þeirra aðferða, sem beitt er, til þess að komast að niðurstöðu, þar sem hún fer gegn 1. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.