Gjaldskrá flutningsfyrirtækisins Landsnets liggur fyrir og hefur verið yfirfarin af Orkustofnun. Gerð var ein athugasemd varðandi það að spennuafsláttur skyldi vera af ótryggðri orku. Gjaldskrár dreifiveitna munu verða sendar Orkustofnun á næstu dögum segir í frétt á heimasíðu Orkustofnunar.

Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 er hlutverk Landsnets að annast flutning raforku og kerfisstjórnun og er Ríkissjóður eigandi alls hlutafjár Landsnets við stofnun þess. Landsnet hf. skal frá 1. janúar 2005 annast rekstur þeirra flutningsvirkja er falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fram að þeim tíma skal það undirbúa reksturinn m.a. með því að koma fram gagnvart eigendum flutningsvirkja við mat á verðmæti slíkra eigna, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í sömu lögum.

Nýtt markaðsumhverfi raforku tekur gildi um næstkomandi áramót þar sem flutningur og dreifing raforku verður sérleyfisstarfsemi, en framleiðsla og sala verður í samkeppni. Samkvæmt raforkulögum skal Orkustofnun hafa umsjón með sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækjanna. Stofnunin hefur lokið við að setja fyrirtækjunum tekjumörk vegna flutnings og dreifingar raforku árið 2005 og samkvæmt raforkulögum skulu tekjumörkin sett út frá eftirfarandi viðmiðum:

1. Kostnaði sem tengist starfsemi vegna flutnings og dreifingar raforku.
2. Arðsemi sem skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa.
3. Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.

Byggt var á bókhaldsgögnum fyrirtækjanna fyrir árin 2002 og 2003 og var almenn hagræðingarkrafa ákvörðuð 1% fyrir öll fyrirtækin.