Orkustofnun birtir á vef sínum í dag tilkynningu vegna fréttaflutnings af endurupptökubeiðni framkvæmdaraðila vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi á matsskylduúrskurði umhverfisráðherra.

Í Fréttablaðinu í dag segir að Orkustofnun „telji ekki lengur að fyrirhuguð vatnsátöppunarverksmiðja í Ölfusi hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.“ Af því tilefni vill Orkustofnun koma því á framfæri að fyrri umsögn stofnunarinnar, um kæru til umhverfisráðherra á ákvörðun SKipulagsstofnunnar á matsskyldu vegna átöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi, var veitt með sérstöku tilliti til vatnafars.

Á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir, í febrúar, var það álit Orkustofnunar að starfsemi vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda kynni að hafa umtalsverð áhrif á grunnvatn á svæðinu. Nú hefur Orkustofnun veitt nýja umsögn, á grundvelli nýrra gagna sem bárust með nýrri umsagnarbeiðni. Á grundvelli nýju upplýsinganna er það mat Orkustofnunar að framkvæmdir við vatnsátöppunarverksmiðjuna séu ekki líklegar til að hafa veruleg umhverfisáhrif á vatnafar svæðisins.

Orkustofnun áréttar að með nýrri umsögn sinni í gær er hún á engan hátt að draga fyrri umsögn til baka, líkt og getið er um í fyrirsögn fréttar Fréttablaðsins. „Þvert á móti er Orkustofnun að veita nýja umsögn á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og borist hafa frá umhverfisráðuneytinu auk þeirra upplýsinga sem stofnuninni hafa verið kynntar af iðnaðarráðherra vegna umsóknar framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi á vatnslindum í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Að lokum skal það tekið fram að Orkustofnun telur fyrri umsögn sína hafa átt sér fullkomna stoð í þeim gögnum sem lágu fyrir á þeim tíma sem hennar var óskað,“ segir í tilkynningu Orkustofnunar.