Orkustofnun hefur ráðið starfsmann, Þórarinn Svein Arnarsson, til að sinna sérstaklega umsýslu stofnunarinnar á sviði olíuleitar, í samræmi við að í fyrra var henni falin aukin verkefni í umsýslu fyrir hönd ríkisins á sviði leitar, rannsókna og vinnslu á kolvetni.

Þórarinn á meðal annars að vinna að tryggri varðveislu, rannsókn og túlkun trúnaðargagna sem skilað er til Orkustofnunar vegna leitar og rannsókna á kolvetni og stýra eftir atvikum aðkeyptum verkefnum á því sviði, auk þess að aðstoða við þann almenna undirbúning leyfisveitinga sem nú stendur yfir.

Þórarinn er efnafræðingur og haffræðingur að mennt og hefur stundað rannsóknir á sviði lífrænnar jarðefnafræði, auk þess að hafa reynslu af vinnslu og greiningu umfangsmikilla gagna.

Íslensk stjórnvöld stefna að því að í janúar 2009 verði hægt að bjóða út sérleyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg.