„Menn hafa haldið væntanlegum viðskiptavinum upplýstum og munu rækta þau sambönd eftir því sem færi gefst,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, spurður um stöðu HydroKraft, orkuútrásarverkefnis Landsvirkjunar og Landsbankans. HydroKraft Invest er fjárfestingarfélag í eigu Landsbankans og Landsvirkjunar sem hefur haft það að markmiði að fjárfesta í umbreytingaverkefnum og nýframkvæmdum á sviði endurnýjanlegrar orku.

Í kjölfar undangenginna atburða, bæði yfirtöku ríkisins á Landsbankanum og þeirra almennu erfileika sem Íslendingar eiga nú við að glíma, hefur HydroKraft verið sett í algjöra biðstöðu. Ekki var búið að leggja verulegt fé inn í félagið og höfðu eigendurnir einungis gefið út loforð um að leggja einhverja milljarða inn í félagið þegar verkefni lægju fyrir.

Ferlið var þó ekki komið svo langt og að sögn Þorsteins voru bara einn til tveir starfsmenn að vinna í því, auk þess sem einhver greining á mögulegum fjárfestingarverkefnum fór fram innan fyrirtækjanna. Nú hafi Stefán Pétursson, sem fór fyrir verkefninu, hins vegar snúið aftur til fyrri starfa sem fjármálastjóri Landsvirkjunar og HydroKraft lifi því góðu lífi niðri í skúffu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .