Félagið Sjóböð hefur í hyggju að setja á laggirnar sjóbaðsstað á Húsavíkurhöfða. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að áætlað sé að baðsvæðið verði um eitt þúsund fermetrar og húsnæði þar um helmingi minna. Félagið hefur sömuleiðis áform um að byggja 70 til 100 herbergja heilsuhótel í tengslum við sjóböðin í tveimur áföngum.

Félagið Sjóböð ehf er í eigu Orkuveitu Húsavíkur, Norðursiglingar, fjárfestingafélagsins Tækifæris á Akureyri og fleiri aðila. Fyrirhugað er að húsnæði sjóbaðanna rísi í grennd við borholur orkuveitunnar en þar kemur upp heitur sjór.

Í Morgunblaðinu segir að bæjarráð Norðurþings hafi samþykkt að fara í viðræður við Sjóböð um að útvega lóð undir fyrirhugaðan rekstur sjóbaðsstaðarins.

Í blaðinu segir að samstarf gæti orðið til við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík en heit sjóböð eru talin hafa mikinn lækningamátt, sér í lagi fyrir fólk með húðsjúkdóma.