Í dag var gengið frá kaupum Orkuveitu Reykjavíkur á hitaveitunni í Skorradal. Um er að ræða borholu og viðeigandi búnað sem Skorradalshreppur átti og veitukerfi sem var í eigu Hitaveitu Skorradals ehf. að því er segir í tilkynningu OR.

Samanlagt kaupverð er 28 milljónir króna en einnig yfirtekur OR áhvílandi skuldir að upphæð 26 milljónir króna. Orkuveita Reykjavíkur mun taka við rekstri hitaveitunnar um áramótin.

Skrifað var undir kaupsamninga í stöðvarhúsi Andakílsárvirkjunar síðdegis. Undir þá skrifuðu f.h. OR þeir Guðlaugur Þór Þórðarson stjórnarformaður og Guðmundur Þóroddsson forstjóri, f.h. Hitaveitu Skorradals stjórnarmennirnir Magnús Snorrason, Ólafur Eyjólfsson, Davíð Pétursson, Jón Einarsson og Jón Haukur Sigurðsson og af hálfu Skorradalshrepps Davíð Pétursson oddviti og Steinunn Fjóla Benediktsdóttir varaoddviti.

Í tilkynningunni kemur fram að Hitaveitan í Skorradal, sem tók til starfa árið 1996, þarfnast orðið talsverðra endurbóta. Hún þjónar hvorttveggja býlum og bústöðum í dalnum en nær þó til tiltölulega lítils hluta þeirrar miklu sumarhúsabyggðar sem þar er. Að mörgu er að huga við enduruppbyggingu veitunnar og mun Orkuveita Reykjavíkur nota næsta árið til að leggja drög að því með hvaða hætti verður staðið að uppbyggingunni. Markmiðið er að veitan þjóni sem best vaxandi markaði fyrir heitt vatn í öllum Skorradalnum eða þar sem hagkvæmt kann að vera að hitaveituvæða.

Samningur þessi eykur við starfssemi OR á Vesturlandi en í dag er rekur OR veitur á Akranesi, Hvanneyri, Varmalandi, Bifröst, í Grundarfirði, Borgarnesi, Munaðarnesi, Norðurárdal, Reykholti og í Stykkishólmi. Aðrar veitur OR sem helst sinna sumarhúsabyggðum er að finna á Suðurlandi svo sem í Grímsnesi og í Biskupstungum.