Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur úrskurðað að Orkuveitu Reykjavíkur sé óheimilt að eiga sem nemur 10% hlut eða meira í Hitaveitu Suðurnesja.

Standi sá úrskurður þarf OR að selja hlut sinn í HS niður fyrir 10%, en hún á nú um 16,5% í Hitaveitunni. Sömuleiðis getur ekkert orðið af kaupum OR á hlut Hafnarfjarðar í HS.

Fyrr í vetur komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að OR mætti ekki eiga meira en 3% í Hitaveitu Suðurnesja. Þeirri ákvörðun var áfrýjað af hálfu Orkuveitunnar og Hafnarfjarðarbæjar.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála segir að sú samflétta Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hf. „sem orðin er og stefnt er að er til þess fallin að draga úr hvata til samkeppni á hinum skilgreinda markaði og gera líklegt að eftir standi einungis fákeppni á honum,“ eins og segir í úrskurðinum.