Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) ákvað á fundi sínum í gær að rifta samningi fyrirtækisins og Sveitarfélagsins Álftaness frá árinu 2007 um kaup, uppbyggingu og rekstur fráveitu Álftaness. Ástæðan er verulegar vanefndir sveitarfélagsins á greiðslum til OR samkvæmt samningnum. Krafa OR á hendur sveitarfélaginu nemur tæpum 90 milljónum króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

„Það var 25. janúar 2007 að OR keypti fráveitu Álftaness á 57,5 milljónir króna og tók þar með að sér uppbyggingu og rekstur hennar. Í samningnum var kveðið á um að OR fengi greiðslur frá sveitarfélaginu – fast gjald og gjald á hvern fermetra húsnæðis auk stofngjalda – en sveitarfélagið innheimti gjöld af notendum. Greiðslur sveitarfélagsins til OR átti að inna af hendi mánaðarlega.

OR hefur gengið erfiðlega að fá þessar greiðslur sem sveitarfélagið hefur þó innheimt af íbúum. Nú er svo komið að öll fráveitugjöld ársins 2010 eru í vanskilum, auk stofngjalda vegna nýrra hverfa árin 2008, 2009 og 2010. Um nýliðin áramót nam krafa OR á hendur Álftanesi 89.277.261 krónu, með vöxtum.

Á móti kemur krafa sveitarfélagsins um fráveituframkvæmdir, sem hafa tafist af ýmsum ástæðum og þar með frestað samningsbundnum útgjöldum OR. Fundir með bæjaryfirvöldum og sérstakri fjárhaldsstjórn sveitarfélagsins hafa ekki borið árangur og því var gripið til þess af hálfu OR að rifta samningnum. Við riftunina hefur eignarhald og ábyrgð á rekstri fráveitunnar nú þegar flust aftur yfir til sveitarfélagsins,“ segir í tilkynningu.