Orkuveita Reykjavíkur tók í dag formlega í notkun nýja aflvél í Hellisheiðarvirkjun. Hér er um að ræða vél af nýrri gerð, lágþrýstivél sem nýtir skiljuvatn sem ekki er hægt að nýta í háþrýstihverflunum tveimur sem þegar eru í notkun í virkjuninni.

„Þegar farið var að bora á jarðhitasvæðinu við Hellisheiðarvirkjun kom í ljós að aflgeta þess var meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Hiti vatnsins, sem skilinn er frá gufunni áður en hún fer í háþrýstivélarnar, reyndist meiri en þarf til að framleiða heitt vatn, þegar fram líða stundir. Þá var farið að leita leiða til að nýta skiljuvatnið betur og var lágþrýstivél talin besti kosturinn,” segir í fréttatilkynningu frá OR.

Fullyrt er að hin nýja vél muni spara fyrirtækinu 700 milljónir króna árlega í raforkukaupum fyrir almennan markað.

„Í dag erum við að taka í notkun tækni sem er hvorttveggja í senn; umhverfisvænni með því að bæta nýtingu jarðhitaauðlindarinnar og eykur hagkvæmni okkar raforkuframleiðslu. Með því er stórt skref stigið umhverfinu, almenningi og sérstaklega viðskiptavinum Orkuveitu Reykjavíkur til hagsbóta,” segir Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður OR.

Áfangastaður fyrir ferðamenn
Samhliða því að nýja aflvélin var ræst í dag, var nýtt kynningarrými Hellisheiðarvirkjunar tekið formlega í notkun. Þar gefur að líta margvíslegt fræðsluefni um nýtingu jarðhitans hér á landi og vinnsluferli Hellisheiðarvirkjunar.

„Mikil eftirspurn hefur verið eftir heimsóknum í virkjunina, hvorttveggja af hálfu Íslendinga og útlendinga. Ræðst það ekki síst af miklum áhuga víða um heim á að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu og vilja gestir gjarna kynna sér á Hellisheiðinni það sem nýjast er í þeim efnum,” segir í fréttatilkynningunni.