Orkuveita Reykjavíkur (OR) er að hefja vinnu við byggingu gasskiljustöðvar við Hellisheiðarvirkjun. Hlutverk stöðvarinnar er að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar. Stefnt er að því að ljúka verkinu í mars á næsta ári og er gert ráð fyrir því að það kosti tæpar 300 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu frá OR að eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett haustið 2006 fór að bera meira á hveralykt á höfuðborgarsvæðinu. Sú hugmynd hafi þá kviknað að hreinsa brennisteinsvetnið frá jarðgufunni og dæla því aftur niður í berggrunninn með vinnsluvatni virkjunarinnar. Smíðuð var tilraunastöð og var fyrsta niðurdælingin síðla árs 2011. Það hafi gengið svo vel að ákveðið var að smíða stærri gasskiljustöð sem annað gæti útblæstri frá einum af sex háþrýstihverflum virkjunarinnar. Það er sú stöð sem nú fer í byggingu nú.

Smíðin var boðin út snemmsumars og átti fyrirtækjahópur undir forystu Héðins hf. hagstæðasta boðið. Gengið hefur verið frá samningum og verður ræsfundur verkkaupa og verkataka á mánudag.