Í dag skrifuðu forstjórar Orkuveitu Reykjavíkur og Landsnets hf. undir samning um kaup Landsnets á flutningsvirkjum í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Kaupverðið er 1,3 milljarðar króna og greiðir Landsnet fyrir raforkuvirkin í hlutafé og reiðufé.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Af kaupverðinu greiðir Landsnet um 900 milljónir króna í reiðufé og um 400 milljónir króna í hlutafé, sem svarar til u.þ.b. 8% hlutar í Landsneti hf. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Landsnets.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að salan komi til með að skerpa skil dreifingar og flutnings á raforku, sem sé til þess fallið að auka gegnsæi á þessum mikilvæga markaði. ?Okkur hefur tekist á síðustu árum að lækka mjög raunverð raforku til almennings með því að einbeita okkur að því sem við gerum best. Með því að flytja þessar eignir yfir til Landsnets skerpum við okkar áherslur enn frekar,? segir Guðmundur í tilkynningunni.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets hf., segir þetta einfalda rekstur flutningskerfis raforku og að betri yfirsýn fáist yfir kerfið. ?Það er ennfremur fagnaðarefni að fá Orkuveitu Reykjavíkur í hluthafahóp Landsnets hf.,? bætir Þórður við. Við kaupin hefur Landsnet eignast allt meginflutningskerfi landsins, en fyrir skemmstu keypti Landsnet flutningsvirki Hitaveitu Suðurnesja hf.

Við markaðsvæðingu raforkumála, árið 2005, var flutningskerfi raforku skilgreint og það falið Landsneti til rekstrar. Hlutar þessa kerfis voru í eigu ýmissa orkufyrirtækja. Stóð þeim þá til boða að selja Landsneti flutningsvirki sín og fá greitt í reiðufé eða hlutafé. Einnig stóð til boða að leigja Landsneti mannvirkin og var það sá kostur sem Orkuveita Reykjavíkur tók á þeim tíma.

Á meðal þeirra eigna sem Orkuveitan selur nú Landsneti er rafstengur frá Nesjavallavirkjun að tengivirkinu við Korpu, Akraneslína auk ýmiss búnaðar í tengivirkjum.