Hagnaður af starfsemi Gagnaveitu Reykjavíkur (áður Línu.nets) á síðasta ári nam 119 milljónum króna, samkvæmt ársreikningi sem nýlega var skilað til ársreikningaskrár. Eiginfjárhlutfall GR í upphafi síðasta árs var 55,3% en bókfært eigið fé var rúmlega 3,5 milljarðar króna. Handbært fé félagsins var 10 milljónir í árslok. Vaxtaberandi skuldir GR eru að öllu leyti í erlendri mynt.

Orkuveita Reykjavíkur er eini lánveitandi fyrirtækisins og átti tæplega 3,3 milljarða skuld á hendur GR um síðustu áramót. Ekki þarf þó að endurgreiða fyrr en á árinu 2014. Gagnaveita Reykjavíkur hefur lengi verið pólitískt þrætuepli. Sjálfstæðismenn kölluðu um tíma eftir sölu þess, en ekkert var þó gert í því í tíð 200 daga meirihlutans í borginni.

Nýr stjórnarformaður OR, Guðlaugur G. Sverrisson, segir að hann vilji fyrst ræða við hagsmunaaðila áður en hann ræðir um framtíð fyrirtækisins opinberlega.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .