Orkuveita Reykjavíkur tekur 80 milljón dala, eða sem samsvarar 10,8 milljörðum íslenskra króna lán vegna viðspyrnuverkefna í faraldrinum. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í mánuðinum að Orkuveitan hefði aukið hagnað sinn um 600 milljónir króna milli ára, í 1,6 milljarða á þriðja ársfjórðungi ársins.

Þess má geta að aðaleigandi fyrirtækisins, Reykjavíkurborg, var með neikvæða afkomu upp á milljarð fyrstu 9 mánuði ársins þegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir 11 milljarða króna afgangi.

Félagið hafði þá fjárfest fyrir 11,4 milljarða króna á tímabilinu en félagið ákvað síðasta vetur að fara í viðamiklar viðspyrnufjárfestingar vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins með viðhaldsverkefnum og stækkun veitukerfa.

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) veitir Orkuveitur Reykjavíkur lánið, sem er til 15 ára, til að fjármagna fjárfestingaráætlun við að bæta jarðvarmavinnslu og dreifikerfi raforku á Íslandi.

Rafvæðing hafnarsvæðis til að spara díselolíu

Lánið, sem hljóðar upp á 80 miljónir dollara (67,52 miljónir evra) mun að hluta fjármagna nýjar viðbótar- og niðurdælingarholur, nýjar tengingar á gufulögnum, nýja verkstæðisbyggingu sem og stækkun á stöðvarhúsi gufuaflsvirkjunarinnar á Hellisheiði.

Borun á viðbótarholum er reglubundinn aðgerð til að viðhalda afköstum jarðvarmavirkjana. Í Nesjavallavirkjun felast verkefnin einkum í að bora nýjar viðbótarholur, að uppfæra heildarstýrikerfi og skipta út búnaði í gufuaflsstöðvum.

Lánið verður jafnframt notað til að fjármagna endurbætur á raforkudreifikerfinu, endurnýja gamlan búnað í dreifikerfinu, rafvæða hafnarsvæði og uppsetningu snjallmæla. Rafvæðing hafnarinnar gerir notendum kleift að tengja skip við rafmagn í landi og þar með draga úr mengun frá skipum sem ganga fyrir dísilafli þegar þau liggja við festar.

Raforkuafköst Orkuveitunnar nema 431 MW

Orkuveita Reykjavíkur sér viðskiptavinum sínum fyrir rafmagns-, fjarhita-, drykkjarvatns-, frárennslis- og ljósleiðarakerfi. Í lykilþáttunum, rafveitu og fjarhitun, þjónar fyrirtækið meira en helmingi íbúa Íslands.

Fyrirtækjasamstæðan á og rekur þrjú orkuver, jarðvarmaorkuver á Nesjavöllum og Hellisheiði og vatnsaflsvirkjunina Andakílsárvirkjun, með samanlögð raforkuafköst upp á 431 MW. Orkuveita Reykjavíkur er í eigu Reykjavíkurborgar (93,54%), Akraneskaupstaðar (5,53%) og Borgarbyggðar (0,93%).

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar.

Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. NIB er með hæsta mögulega lánshæfismatið, AAA/Aaa, hjá leiðandi lánshæfismatsstofnununum Standard & Poor’s og Moody’s.