Salan á höfuðstöðvum Orkuveitunnar við Bæjarháls verður tekin fyrir í borgarstjórn í dag. Í frétt Ríkisútvarpsins segir að það séu lífeyris-og verðbréfasjóðir sem standi að kauptilboðinu sem hljómar uppá 5,1 milljarð. Eins og vb.is greindi frá á sínum tíma var það Straumur fjárfestingabanki sem lagði fram tilboðið fyrir hönd óstofnaðs samlagshlutafélags.

Bæði Fasteignasjóður Íslands og Straumur Fjárfestingabanki skiluðu inn tilboðum í húsið í desember 2012 og var ákveðið að ganga að tilboði Straums. Heimildir fréttastofu Ríkisútvarpsins herma, að gangi salan eftir, muni Orkuveitan greiða öll opinber gjöld og viðhaldskostnað á húsinu að viðbættri leigu og verður heildarkostnaðurinn því um 330 milljónir króna á ári. Mun OR því greiða tæpar 28 milljónir í leigu á mánuði fyrir Orkuveituhúsið í Árbænum.