Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hækkaði í gær lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur um eitt þrep. Að mati Fitch fellur OR nú í BBB- með stöðum horfum í stað BB+. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Í rökstuðningi Fitch segir að hækkunin endurspegli væntingar til OR á næstu fjórum árum. Þær byggi á góðum árangri sem náðst hefur þrátt fyrir faraldurinn. Þá séu gengisvarnir félagsins í ágætu standi. Í ársbyrjun voru heildarskuldir OR rúmlega 170 milljarðar íslenskra króna, þar af er um 41% í erlendum gjaldmiðlum.

„Þetta er afar ánægjulegt og langþráð en þetta er eitt af því sem stefnt var að með Planinu svokallaða. Þann 1. apríl síðastliðinn voru einmitt nákvæmlega 10 ár síðan Planið var sett af stað. Það er einnig ánægjulegt að við skulum ná þessum áfanga í miðjum Covid-faraldri á sama tíma og þau fyrirtæki sem Orkuveitan er borin saman við hafa staðið í stað eða lækkað í lánshæfismati. Þá er það einnig athyglisvert að lánshæfiseinkunn okkar sé að hækka á sama tíma og íslenska hagkerfið hefur orðið fyrir þeim miklu skakkaföllum sem raun ber vitni,“ er haft eftir Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála hjá OR, í tilkynningunni.