Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skilaði 5,1 milljarðs króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Er það viðsnúningur frá fyrsta árshluta en á fyrstu þremur mánuðum ársins var 2,1 milljarðs króna tap á rekstri. Orkuveitan birti hálfsársuppgjör sitt eftir að hann var samþykktur á stjórnarfundi á föstudag. Þar var einnig tekin ákvörðun um gjaldskrárhækkun og niðurskurð rekstrargjalda.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að helstu ástæður rekstrarbata séu styrking krónunnar og lækkun fjármagnskostnaðar. Greiddir vextir á fyrri hluta árs námu 1,1 milljarði króna en var 3,3 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) á fyrstu sex mánuðum ársins nam 7,1 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 16,2% í lok júní. Það var 14,4% í árslok 2009.

Í efnahagsreikningi félagsins kemur fram að handbært fé nam í lok júní tæpum 1,1 milljarði króna og hefur lækkað um tæpa 2 milljarða frá því í lok síðasta árs. Heildareignir félagsins lækkuðu um tæpa 4 milljarða á fyrri helmingi árs.

Skuldir lækka

Heildarskuldir Orkuveitunnar hafa lækkað um rúma 8 milljarða frá áramótum og voru í júnílok um 233 milljarðar króna. Skammtímaskuldir hækkuðu um rúma 2 milljarða á tímabilinu og voru um 21 milljarður króna í lok tímabils. Vaxtaberandi skuldir félagsins voru um 227,5 milljarðar króna, þar af um 17 milljarðar skammtímaskuldir.

Tafla yfir afborganir langtímalána:

Afborganir langtímalána greinast þannig næstu tímabil:                                        30.6. 2010

1.7. 2010 til 30.6. 2011 / 1.1. til 31.12. 2010......................................................... 14.915.834

1.7. 2011 til 30.6. 2012 / 1.1. til 31.12. 2011......................................................... 14.960.482

1.7. 2012 til 30.6. 2013 / 1.1. til 31.12. 2012......................................................... 24.732.834

1.7. 2013 til 30.6. 2014 / 1.1. til 31.12. 2013......................................................... 16.182.976

1.7. 2014 til 30.6. 2015 / 1.1. til 31.12. 2014......................................................... 12.444.633

Síðar .................................................................................................................... 142.486.317

Langtímaskuldir samtals, þ.m.t. næsta árs afborgun ........................................... 225.723.075

Orkuútgjöld hækka um tæp 30%

Stjórnarfundur sem haldinn var í gær, föstudag, var tíðindamikill. Meirihluti stjórnar samþykkti gjaldskrárhækkun sem tekur gildi 1. október næstkomandi. Þá mun rafmagnsverð til heimila hækka um 11%, verð á heitu vatni um 35% og gjald fyrir dreifingu rafmagns um 40%.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að fjögurra manna fjölskylda í 130 fermetra íbúð í fjölbýli megi búast við um 2400 króna hækkun á mánaðarlegum orkuútgjöldum. Mánaðarleg hækkun er um 350 krónum hærri fyrir fjölskyldu af sömu stærð í einbýli. Það er um 28,5% hækkun.

Orkuveitan hyggst draga saman rekstur um liðlega tvo milljarða króna með hagræðingu í rekstri. Verður það gert í áföngum til ársins 2012. Þar af munu aðgerðir áranna 2009 og 2010 skila um 900 milljóna króna sparnaði, segir í tilkynningu. Laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður nam um 4 milljörðum króna á fyrri helmingi árs.

Gjaldskrá taki mið af verðlagsþróun

Tillaga um að gjaldskrá Orkuveitunnar skuli hér eftir halda raungildi sínu var samþykkt á stjórnarfundinum. Gjaldskrá félagsins mun verða endurskoðuð á hálfsárs fresti og breytast með verðlagsþróun, það er verðbólgu. Segir í tilkynningu að „ forstjóri fyrirtækisins mun endurskoða gjaldskrána á hálfs árs fresti og leggja mögulegar breytingar fyrir stjórn til kynningar.“

Stefnt að sölu eigna

Stefnt er að sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi félagsins, að því er segir í tilkynningu. Má þar nefna eignarhluti í ýmsum félögum, til dæmis í HS veitum og Landsneti. Orkuveitan hyggst einnig selja landeignir og lóðir þar sem skilja má jarðhitaeignir frá. Þá verða fasteignir félagsins seldar og eru Hótel Hengill og veitingastaðurinn Perlan í Reykjavík nefndar til sögunnar.

Forstjóra Orkuveitunnar hefur verið falið að búa til lista yfir umræddar eignir, áætla söluvirði og leggja til hvernig staðið skuli að sölu þeirra.

Unnið að fjármögnun Hellisheiðarvirkjunar

Í tilkynningu frá félaginu segir að áfram sé unnið að stækkun Hellisheiðavirkjunar. Áformað sé að taka 4. áfanga hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs. Fimmti áfangann, framleiðslu á 90 MW rafafls, á að taka í notkun síðla árs 2011. Orkuveitan hefur þegar samið við Evrópska fjárfestingarbankann um fjármögnun helmings 5. áfanga. Segir að viðræður um frekari fjármögnun standi yfir.

Staðan slæm

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna úttekt á skuldastöðu Orkuveitunnar. Óhætt er að segja að staðan sé slæm og hefur Orkuveitan átt í erfiðleikum með að fjármagna sig, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum á síðstu vikum. Forsendur allra frekari lána byggja á að styrkja tekjugrunn og draga úr gjöldum - hækka gjaldskrá og skera niður.

Hvort Orkuveitan greiði eigendum sínum arð á árinu er óvíst en í árshlutauppgjöri segir:

„Það er stefna fyrirtækisins að eiginfjárstaða þess sé nægilega sterk til að styðja við stöðugleika og framtíðarþróun starfseminnar. Arðgreiðslur hafa verið ákveðnar sem ákveðið hlutfall eigin fjár óháð afkomu viðkomandi árs. Eigendafundur tekur ákvörðun um arðgreiðslur.“