Orkuveita Reykjavíkur hagnaðist um 3,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung sem var birtur í dag. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nemur 7,2 milljörðum og var hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir af tekjum félagsins (EBITDA-hlutfall) 65% á ársfjórðungnum. Vaxtagjöld námu um 1,1 milljarði króna og var vaxtaþekja fyrirtækisins um 4,4 á ársfjórðungnum.

Eignir Orkuveitunnar hækka um 10 milljarða milli ára og nema nú 309 milljörðum króna. Arðsemi eigna, sé miðað við hagnað á fyrsta ársfjórðungi, nemur 4,2% á ársgrundvelli. Handbært fé minnkar á milli ársfjórðunga um 27 milljónir sé ekki tekið mið af áhrifum gengisbreytinga. Eiginfjárhlutfallið var 34,6% í lok ársfjórðungsins en var 33,2% í lok síðasta árs.

Í afkomutilkynningu Orkuveitunnar segir að afkoma fyrsta ársfjórðungs sé góð. "Mikill árangur hefur náðst í fjár- og áhættustýringu í rekstri OR og fyrirtækið gefur út í dag skýrslu um markmið í málaflokknum, hvað áunnist hefur og að hverju er unnið," segir í tikynningunni.

Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Orkuveitunnar með 93% hlut.