Orkuveita Reykjavíkur mun leggja kapp á það að sumarið framundan nýtist til framkvæmda við lagningu nýrrar hitaveitu frá Hellisheiðarvirkjun. Mikilvægt er að þessi helsti framkvæmdatími nýtist svo að heitt vatn geti streymt til Höfuðborgarsvæðisins frá Hellisheiði haustið 2010 segir í frétt á heimasíðu OR. Þar kemur fram að OR hyggst ræða við undirverktaka sem unnu fyrir Klæðningu að verkinu.

Klæðning ehf. hefur rift samningum um lagningu æðarinnar og tengdar framkvæmdir. Óvissa hefur ríkt um framgang verksins um hríð og jókst hún fyrir rúmri viku þegar fjármögnunarfyrirtæki tók að leysa til sín fjölda vinnuvéla, sem notaðar höfðu verið til verksins. Þá þótti útséð um getu Klæðningar til að ljúka verkinu. Einnig hyggst OR ræða við fjármögnunarfyrirtæki þau sem Klæðning var í viðskiptum við.