*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 20. nóvember 2017 18:03

Orkuveitan kaupir höfuðstöðvarnar aftur

OR seldi húsnæðið á 5,1 milljarð árið 2013 en kaupir það aftur á 1,4 milljarða auk 4,1 milljarðs yfirtöku á lánum.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur fest kaup á höfuðstöðvum fyrirtækisins við Bæjarháls á ný. OR seldi húseignirnar fyrir 5,1 milljarð króna árið 2013, til Foss fasteignafélags slhf. sem stofnað var sérstaklega utan um húsnæði Orkuveitunnar. Orkuveitan leigði höfuðstöðvarnar aftur af Fossi til 20 ára en var jafnframt skuldbundin til að sjá um viðhald þeirra.

Orkuveitan tilkynnti í ágúst að miklar rakaskemmdir væru í höfuðstöðvunum sem milljarða myndi kosta að gera við. Í kjölfarið hófust viðræður um að kaupa húsnæðið á ný.

„Rakaskemmdirnar í vesturhúsinu sköpuðu OR óviðunandi aðstæður. Fyrirtækið óskaði því eftir viðræðum við Foss fasteignafélag um lausn á vandanum. Niðurstaða viðræðna varð sú að OR fær að nýju fullt forræði yfir fasteignunum við Bæjarháls 1. OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði. OR hyggst endurfjármagna þau með útgáfu skuldabréfa,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

 „Í samskiptum við eigendur Foss kom fljótlega í ljós vilji beggja til að ná samkomulagi. Deilur eða málarekstur gætu kostað báða aðila mikið fé og kallað á áralanga óvissu um sjálft meginefni málsins; heilsuspillandi hús sem er engum til gagns. Að vel athuguðu máli varð það niðurstaða okkar að reyna að eignast húsin aftur. Verkefnið er snúið. Margir kostir eru til skoðunar og með þessu samkomulagi er valið okkar,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR í tilkynningunni.

Orkuveitan segir að fyrirtækið hafi ávaxtaði upprunalegt söluandvirðið í varasjóði. Orkuveitan áætlar að vaxtatekjur af fénu frá sölu hússins nemi rúmlega 330 milljónum króna umfram leigugreiðslur OR til Foss. Orkuveitan greiddi 906 milljónir í leigu af húsnæðinu frá árinu 2013 fram til 31. Október 2017 en áætlar að ávöxtun söluandvirðisins hafi numið 1.237 milljónum króna.