Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var fyrsti ræðumaður á ársfundi Orkuveitunnar en hann sagði að á liðnu ári hafi fyrirtækið glímt við asahláku í vatnsbólum sem olli mengun neysluvatns, bilun fráveitudælustöðva og skemmdir á Orkuveituhúsinu. Hann sagði hins vegar tilefni til þess að horfa björtum augum á framtíðina og að reksturinn væri kominn í afar gott horf. Hann sagði framtíðina bera í skauti sér hreinar strendur – alltaf, hreint vatn – alltaf, öruggt heitt vatn – alltaf, og auðvitað ábyrgð í rekstri.

Á næsta ári, sagði Dagur, hyggst Orkuveitan taka nýjar vinnsluholur drykkjarvatns í notkun en þær væru dýpri og myndu þar af leiðandi fyrirbyggja hættu á jarðvegsgerlamengun.

Þá þakkaði Dagur starfsfólki, stjórnendum og eigendum Orkuveitunnar fyrir að búa til „planið“ svokallaða og árangurinn af því. „Planið“ var áætlun um að snúa við rekstri samstæð­ unnar.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, lýsti framtíðarsýn félagsins í ræðu sinni.  Hann sagði Orkuveituna vilja horfa til vindmylla í framtíðinni. Ísland nyti þeirrar blessunar að hér blési oftar og meira en víðast hvar annars staðar. Ákjósanlegt væri að láta þær framleiða vetni sem hægt væri að geyma. Ekki kom þó fram til hvaða svæða fyrirtækið væri að horfa varðandi staðsetningu vindmyllanna.

Auk þess væri ætlunin  að koma svokölluðum snjallmælum í 150.000 heimili á höfuðborgarsvæðinu. Með þeim væri búið að innleiða tækni sem gerði fyrirtækinu kleift að stýra verði orku í samræmi við álag og tíma sólarhringsins. Ennfremur myndi fyrirtækið byggja upp innviði til þess að hlaða og þjónusta 100.000 rafbíla.

Þá kom fram í máli Bjarna að hætta væri á heitavatnsskorti í borginni en áætlað væri að auka framboð með stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun sem ætti að vera lokið 2020. Það væri hins vegar kapphlaup við tímann.