Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest, segir að töluverð stefnubreyting hafi orðið hjá félaginu frá því í haust því að ný stjórn lágmarki fjárfestingar og vinni einungis með það fé sem búið var að setja inn í félagið á sínum tíma.

Miklar deilur urðu um REI fyrir jól, eins og kunnugt er, vegna þeirrar stefnu sem þáverandi stjórn hafði tekið. Kjartan Magnússon er nú kominn heim eftir ferð til Djíbútí, Jemen og Eþíópíu.

Í ferðinni var gengið frá samkomulagi milli REI, sem er dóttufélag Orkuveitu Reykjavíkur, og ríkisstjórnar Djíbútí um gerð ýtarlegrar hagkvæmniathugunar á nýtingu jarðhita í landinu.

Kjartan segir að verði athugunin jákvæð og leiði til þess að farið verði út í virkjunarframkvæmdir og raforkuframleiðslu muni Orkuveitan ekki fjármagna það.

„Við munum ekki taka fé úr Orkuveitunni í slík verkefni.“ Þess í stað verði leitað til annarra fjárfesta.

Athugunin í Djíbútí felur m.a. í sér borun rannsóknarborhola. Ætlunin er að fjármagna hana með fé frá IFC, fjármögnunarsjóði Alþjóðabankans, og EIB, Evrópska fjárfestingarbankanum. Þá felur umrætt samkomulag í sér ákvæði um tilhögun leyfisveitinga, raforkusölu og tolla- og skattamála, reynist nýting jarðhitans í Djíbútí hagkvæm.

Í ferð sinni ytra kynntu stjórnarmenn og stjórnendur REI sér einnig möguleika á jarðhitanýtingu í Jemen og Eþíópíu. Á hvorugum staðnum var um fjárhagslegar skuldbindingar að ræða, að sögn Kjartans. Í Jemen var skrifað undir minnisblað um frekari viðræður milli REI og orkufyrirtækis jemenska ríkisins. Sambærilegt minnisblað var undirritað í Eþíópíu 21. janúar síðastliðinn.

Kjartan segir aðspurður að það fé sem sett hafi verið í REI fyrir síðasta haust og nú sé unnið með nemi um þremur milljörðum króna. Hann segir að Orkuveitan hafi verið byrjuð að vinna að verkefninu í Djíbútí áður en REI var stofnað. Því skipti máli að hlaupa ekki frá hálfkláruðu verki.