Orkuveita Reykjavíkur auglýsir fjölda aðskiljanlegustu líkamsræktartækja til sölu í Morgunblaðinu í dag.

Ekki er þó verið að loka líkamsræktaraðstöðu þeirri sem er í Orkuveituhúsinu að Bæjarhálsi 1 heldur tengist þetta breytingu á samningi við World Class sem rekur stöðina í húsinu samkvæmt þjónustusamningi við Orkuveituna.

Að sögn Sigrúnar A. Ámundadóttur hjá Orkuveitunni er um að ræða tæki sem Orkuveitan keypti notuð á sínum tíma og hafa verið að ganga úr sér.

Rekstraraðilar World Class vildu endurnýja tækin og var þá talið rétt að þeir legðu þau til sjálfir en væru ekki að nota tæki frá Orkuveitunni.

Að sögn Sigrúnar er stöðin á Bæjarhálsi opin öllum og er hún talsvert notuð af fólki í hverfinu.