Samningur milli Orkuveitu Reykjavíkur og Og Vodafone kveður á um að 67,76% hlutur Orkuveitunnar í Línu.Neti er seldur Og Vodafone á 271 m.kr. á genginu 1,0. Yfirteknar heildarskuldir Línu.Nets, að frádregnum viðskiptakröfum og öðrum peningalegum eignum, nema 43 m.kr. Velta Línu.Net fyrstu 9 mánuði ársins var 224 mkr. Yfirtekin velta Línu.Nets jafngildir um 150 m.kr. á ári og er EBITDA áætluð um 40 m.kr. Stefnt er að sameiningu félagsins við Og Vodafone fljótlega.

Og Vodafone á þegar 11,9% hlut í Línu.Neti og mun gera tilboð í yfirtöku þeirra ríflega 20% hluta í félaginu sem eru í eigu annarra.

Þá er ljósleiðaraeign Og Vodafone seld Orkuveitu Reykjavíkur, þ.m.t. ljósleiðarapör í ljósleiðaraneti Orkuveitu Reykjavíkur sem Og Vodafone keypti skv. kauprétti á 715 m.kr. Bókfærð eign ljósleiðara Og Vodafone nam 430 m.kr. Samhliða þessum viðskiptum er gerður viðskiptasamningur milli fyrirtækjanna til 25 ára um aðgang Og Vodafone að ljósleiðaraneti Orkuveitu Reykjavíkur.