Orkuveita Reykjavíkur og Dexia Credit Local hafa komist að samkomulagi um endurröðun gjalddaga á lánum bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Með breytingunum er afborgunum dreift meira en áður var gert ráð fyrir og fela þær í sér endurfjármögnun á alls 33,3 milljónum evra, sem greiðast áttu í október næstkomandi, en jafnframt er endurgreiðslutími lengri lána styttur. Veginn meðallíftími lána breytist óverulega og vaxtaálag er óbreytt.

„Með samkomulaginu eru afborganir OR jafnari og er það í takti við aukinn stöðugleika í rekstri fyrirtækisins, sem unnið hefur verið að með aðhaldi í rekstri og auknum áhættuvörnum,“ segir í tilkynningunni.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt breytinguna með fyrirvara um staðfestingu eigenda fyrirtækisins.