Tap Orkuveitu Reykjavíkur í fyrra nam 2,3 milljörðum króna að því er kemur fram í tilkynningu. Árið 2011 nam tap fyrirtækisins 556 milljónum króna. Rekstrartekjur jukust um tæpa 4,3 milljarða milli ára og námu 37,9 milljörðum króna. Rekstarkostnaður jókst aðeins um 470 milljónir milli ára og jókst rekstrarhagnaður því töluvert. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 14,7 milljörðum króna í fyrra en var 12,4 milljarðar árið 2011.

Nettó innleyst fjármagnsgjöld námu 5,2 milljörðum króna í fyrra og óinnleystir fjármagnsliðir voru neikvæðir um 13,3 milljarða. Stærsti munurinn milli ára er sá að áhrif tekjuskatts á ársreikninginn voru jákvæð um 6,8 milljarða árið 2011 en um 1,5 milljarða í fyrra.

Í tilkynningu segir að ytri þættir hafi áfram verið rekstrinum óhagfelldir á árinu 2012. Álverð lækkaði og gengi íslensku krónunnar veiktist. Þetta hefur áhrif á reiknað verðmæti raforkusölusamninga Orkuveitunnar við stóriðju og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hækka. Samanlögð áhrif þessa og fleiri reiknaðra fjárhagsstærða í rekstrareikningi Orkuveitunnar eru neikvæð sem nemur 13,4 milljörðum króna.

Í tilkynningunni segir jafnframt að aðgerðaáætlunin „Planið“ sé á áætlun. Þrátt fyrir að eignasala hafi tafist sé árangur Plansins frá samþykkt til ársloka 2012 um 1,8 milljörðum króna umfram áætlun.

Haft er eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, að árið 2013 sé erfiðasta ár Plansins. Nú þegar hafi tekist að létta á afborgunum með samningum við erlenda lánveitendur. Þá hafi stjórn fyrirtækisins samþykkt í dag að gera samninga um gjaldeyrislán frá erlendum og innlendum bönkum og áhættuvarnarsamninga gegn sveiflum í gengi gjaldmiðla og vöxtum. Þessar ráðstafanir eru að sögn Bjarna ávöxtur erfiðis starfsmanna fyrirtækisins. Nú sé hægt að sjá á að komast yfir þann hjalla, sem árið 2013 sé í framgangi Plansins. Mikilvægt sé að missa ekki sjónar á því að Orkuveituna eigi um alla framtíð að reka með hagkvæmni að leiðarljósi. Skuldir séu enn miklar og eigið fé of lágt.