*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 24. ágúst 2015 17:29

Orkuveitan tapar milljörðum á lækkun álverðs

Tekjur Orkuveitu Reykjavíkur aukast á milli ára, en hagnaður félagsins dregst saman vegna virðisrýrnunar afleiða.

Ritstjórn
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lækkun á gangvirði innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur nam 4,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Virðisrýrnun afleiðusamninganna er að uppistöðunni til vegna lækkunar álverðs, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni.

Árshlutareikningur Orkuveitu Reykjavíkur var birtur í dag. Félagið hagnaðist um 2,3 milljarða króna á fyrri helmingi þessa árs, samanborið við 3,8 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins af raforkusölu jukust á milli ára og námu 20,5 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs, samanborið við 18,2 milljarða á sama tíma árið 2014. Handbært fé frá rekstri jókst einnig milli ára og var yfir 11 milljarðar á fyrri árshelmingi.

Orkuveitan tapaði 1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Helsta skýringin virðist vera ofangreind virðisrýrnun á gangvirði afleiðna sem tengjast raforkusölusamningum. Félagið tapaði einnig um 1,1 milljarði króna á áhættuvarnarsamningum á fyrri hluta ársins, en hagnaðist um 1,4 milljarða króna á gengismun.

Eiginfjárhlutfall Orkuveitunnar var 34% í lok júní síðastliðins, samanborið við 33% á sama tíma í fyrra. Eignir Orkuveitunnar eru metnar á 304,5 milljarða króna í árshlutareikningnum. Skammtímaskuldir félagsins námu 24,1 milljarði króna í lok júní og voru meiri en veltufjármunir þess. Veltufjárhlutfallið er 0,77, en á sama tíma í fyrra var það 0,68.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is