Um 100 milljónum króna er varið nú í ár í endurnýjun Reykjaæða, sem flytja um 30 milljónir tonna af heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins á ári. Alls mun endurnýjunin kosta um einn milljarð króna. Þetta kemur fram á vefsíðu Orkuveitunnar .

Þar segir að nú sé verið að endurnýja á kafla frá Elliðaám undir Breiðholtsbraut. Þar sem æðarnar liggja í stokk undir götunni þarf ekki að grafa í gegnum þessa miklu umferðaræð. Æðarnar liggja líka í stokkum yfir Elliðaárnar

Reykjaæðar liggja frá jarðhitasvæðunum að Reykjum og Reykjahlíð í Mosfellsbæ að vatnsgeymunum á Öskjuhlíð. Þær eru um 20 kílómetrar að lengd. Fyrsta húsið var tengt Reykjaveitunni 1943 en lagningu hennar lauk formlega árið eftir.

Metnotkun á heitu vatni

Í frétt Orkuveitunnar segir að hver einasti mánuður frá áramótum hafi verið metmánuður í notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Í lok júní nam notkunin frá áramótum tæpum 46 milljónum tonna, en fyrra met var árið 2013 þegar notkunin var rúm 40 milljónir tonna.

Notkunin á fyrri hluta ársins 2015 er því komin um 13% fram úr fyrra meti.  Um 90% af heita vatninu eru notuð til húshitunar.