Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunar, segir að viðbrögð lánadrottna við gjaldskrárhækkunum séu jákvæð. Viðræður eftir hækkanir eru nú á frumstigi.

„Við höfum þegar fengið jákvæð viðbrögð lánadrottna. Þeir benda þó á að eiginfjárhlutfall er enn mjög lágt miðað við sambærileg fyrirtæki. Fyrirtæki í sambærilegum rekstri eru með um 40-50% eiginfjárhlutfall en er um 16% hjá Orkuveitunni. Það er því vinna framundan,“ segir Haraldur Flosi.

Haraldur Flosi vildi minnst um það segja hvenær gjaldskrárhækkanir taka gildi en í morgun sendi Orkustofnun frá sér tilkynningu þess efnis að hækkanir á gjaldi fyrir dreifingu rafmagns sé háð þeirra samþykki. Tilkynning um gjaldskrárhækkun þarf að berast Orkustofnun tveimur mánuðum fyrir breytingar. Því geta breytingar á gjaldi er tengjast dreifiveitu í fyrsta lagi tekið gildi þann 1. nóvember næstkomandi.

Í huga Haraldar Flosa er dagsetning gjaldskrárhækkana tæknilegt atriði. Hann segir að aðalatriðið sé að ákvörðun um gjaldskrárhækkun hafi verið tekin.

Hækkanir á hita- og rafmagnsgjöldum eru ekki háðar samþykki Orkustofnunar.