Kauphöll Íslands telur ljóst að stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hafi þegar í upphafi árs 2011 talið miklar líkur á því að ekki fengist erlend lánveiting til að uppfylla lánsfjárþörf félagsins næstu árin. Orkuveitan, sem er útgefandi skuldabréfa í Kauphöllinni, tilkynnti hinsvegar ekki um stöðuna fyrr en 29. mars síðastliðinn. Kauphöll ákvað því að áminna OR opinberlega og beita févíti að fjárhæð 1,5 milljón króna.

Kauphöll óskaði eftir skýringum þann 8. apríl 2011 af hverju upplýsingar um áætlanir um erlenda lánsfjármögnun myndu ekki ganga eftir voru ekki birtar opinberlega fyrr. Að mati hennar kann upplýsingaskylda að hafa myndast í byrjun janúar 2011. Í ákvörðuninni er þó miðað við byrjun mars 2011. „Enn fremur telur Kauphöllin að opinber birting upplýsinganna hafi dregist óhóflega frá því tímamarki sem þær komu fram í fjölmiðlum. Var útgefanda í lófa lagið að birta opinberlega tilkynningu um leið og ljóst var að upplýsingarnar höfðu borist óviðkomandi. Telur Kauphöllin að með því að 4(4) bregðast svo seint við hafi útgefandi brotið gegn jafnræði fjárfesta um aðgang að upplýsingum sem reglur Kauphallarinnar ná til,“ segir í ákvörðun Kauphallar.

„Þann 29. mars sl. birti OR opinberlega aðgerðaráætlun vegna fjárhagsvanda félagsins. Kom þar m.a. fram að fjárþörf félagsins væri áætluð 50 milljarðar á árunum 2011-2016. Þar sem komið hefði á daginn að áætlanir um erlenda lánsfjármögnun myndu ekki ganga eftir væri fyrirtækinu um megn að fjármagna sig af eigin rammleik. Í tilkynningunni kom einnig fram að stjórnendur OR hefðu kynnt eigendum félagsins þessa alvarlegu stöðu í janúar 2011 og óskað samstarfs við þá um fjármögnun félagsins. Aðgerðaráætlunin hefði verið afrakstur þess samstarfs og miðaði að því að tryggja rekstur félagsins til frambúðar. Samkvæmt áætluninni væri eigendum ætlað að fjármagna félagið með víkjandi láni til loka ársins 2016 án þess að lánastofnanir kæmu þar við sögu.

Allt frá upphafi árs 2011 birtu fjölmiðlar ítrekað fréttir af því að fjárhagsstaða OR væri mjög bágborin og jafnvel væri hætta á gjaldþroti OR. Skömmu áður en umrædd aðgerðaráætlun félagsins var birt opinberlega birtust í fjölmiðlum nákvæmari fréttir um fjárhagsvanda félagsins og væntanlegar aðgerðir. Þann 28. mars sl., daginn áður en umrædd tilkynning var birt opinberlega, komu fjölmiðlar m.a. fram með þær fréttir að erlend lánafyrirtæki myndu ekki veita OR lán. Enn fremur kom fram að Reykjavíkurborg íhugaði að leggja milljarða króna til OR til að tryggja fjárhag félagsins. Var í þessum efnum vísað til minnisblaðs forstjóra OR sem ritað var þann 23. mars sl.,“ segir í málavöxtum í ákvörðun Kauphallarinnar.