Rekstri Orkuveitu Reykjavíkur verður um áramótin skipt upp í aðskilda þætti til samræmis við kröfur í raforkulögum um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra kynnti frumvarp þessa efnis á ríkisstjórnarfundi i dag. Orkuveitan hefur hingað til haft undanþágu frá raforkulögunum.

Í minnisblaði sem ráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun kemur fram að önnur orkufyrirtæki á markaði hafi þegar aðskilið rekstur sinn í samræmi við lögin. Orkuveita Reykjavíkur rekur sem sérleyfisstarfsemi raforkudreifingu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu en sem samkeppnisstarfsemi framleiðslu og sölu raforku.

Í minnisblaðinu kemur fram að sérstök lög gildi um Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. lög nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. „Fyrirhuguð uppskipting fyrirtækisins, í sérleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi, hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og kallar hún á breytingar á þeim lögum. Við þessi tímamót þótti heppilegast, að höfðu samráði við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur hennar, að fella brott núgildandi lög frá 2001 um stofnun fyrirtækisins og leggja fram frumvarp til nýrra heildstæðra laga um Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í minnisblaðinu.

Nýja frumvarpið um Orkuveitu Reykjavíkur byggir því í grunninn á núgildandi lögum frá 2001 en felur í sér nýmæli sem gerir Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum, frá og með áramótum, með því að stofna dótturfélög, og kveður á um að aðgreining í starfsemi fyrirtækisins skuli vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar frá núgildandi lögum til einföldunar.

Í minnisblaði ráðherra kemur fram að við gerð frumvarpsins hafi verið haft náið samráð við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur fyrirtækisins. Jafnframt hafi verið haft samráð við Orkustofnun sem og fjármálaráðuneytið vegna skattalegra atriða í tengslum við uppskiptinguna.