Úttektarskýrslu um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur verður afhent Jóni Gnarr, borgarstjóra, í dag. Samkvæmt skipunarbréf úttektarnefndar er henni ætlað að skýra aðdraganda og orsakir fyrir þeirri stöðu sem rekstur Orkuveitu Reykjavíkur er í.

Í júní 2011 skipaði núverandi meirihluti borgarráðs úttektarnefnd en henni var ætlað að gera úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Nefndina skipa þau Margrét Pétursdóttir, endurskoðandi, Ása Ólafsdóttir, lögmaður (og fv. aðstoðarmaður Rögnu Árnadóttur þá dómsmálaráðherra) og Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við HÍ.

Starfsmaður nefndarinnar var Gestur Páll Reynisson, stjórnsýslufræðingur og fv. framkvæmdastjóri Ungra jafnaðarmanna.

Nefndinni var ætlað að skoða resktur Orkuveitu Reykjavíkur allt frá stofnun fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, þar sem tilkynnt var um nefndarskipan, kom fram að henni væri sérstaklega ætlað að skoða hvernig staðið var að mikilvægum skuldbindandi ákvörðunum, þar á meðal aðkomu eigenda, stjórnar og stjórnenda að þessum ákvörðunum. Úttektin mun ennfremur beinast að vinnubrögðum stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjórnar og samvinnu þeirra á milli. Þá verða ýmsir þættir innra eftirlits fyrirtækisins metnir og áhættustýring þess skoðuð.

Skýrslan átti upprunalega að liggja fyrir þann 1. mars sl. og hefur útgáfa hennar því tafist um sjö mánuði.

Skýrslan verður sem fyrr segir afhent borgarstjóra í dag. Þar með er hlutverki nefndarinnar í raun lokið en það er síðan undir borgarstjóra komið hvernig skýrslan verður afhent eða kynnt í framhaldinu