*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Erlent 6. mars 2020 07:16

Orkuver framleiðir eigin Bitcoin

Bandarískt jarðgasorkuver nýtir orkuna til að grafa fyrir rafmynt að andvirði 8,3 milljóna króna á dag.

Ritstjórn
Bitcoin námuverin, sem fá greitt í rafmynntinni fyrir að framkvæma millifærslur í henni eru af öllum stærðum og gerðum.
epa

Bandarísk jarðgasorkuver í New York ríki, sem áður framleiddi rafmagn úr kolum, hefur sett upp eigin Bitcoin gagnaver sem nýtir um 15 megavött af 106 megavatta framleiðslugetu þess.

Í umfjöllun Bloomberg um Greenridge generation orkuverið er bent á að lengi vel leituðu slíkar Bitcoin námuvinnslur á markaði með ódýrt rafmagn frá vatnsorkuverum líkt og hér á landi, en verðhækkanir á raforku undanfarið á slíkum stöðum hafi komið illa fyrir slík fyrirtæki.

Gagnaverið, sem samanstendur af um 7 þúsund örgjöfum nýtir þá til að framkvæma flókna útreikninga til að þjónusta millifærslur Bitcoin eigenda, og aflar sér þannig 5,5 Bitcoin einingar á dag, sem eru að andvirði um 50 þúsund Bandaríkjadala, eða um 8,3 milljóna íslenskra króna.

Orkuverið sem var byggt árið 1937 í um 6 þúsund fermetra húsnæði í Dresden í New York ríki, er í eigu einkahlutafélagsins Atlas Holding nýtir um 15 megawött af 106 megawatta framleiðslugetu sinni í námuvinnsluna. Áður fyrr var orkuverið einungis nýtt þegar orkuþörf var í hámarki, á heitustu tímum sumarsins og köldustu tímum veturs, en núna starfar orkuverið árið í kring.

Tim Rainey fjármálastjóri Greenridge orkuversins segir félagið nú auðveldlega geta aðlagast verðsveiflum á bæði Bitcoin og orkumörkuðum og nýtt orkuframleiðslugetuna í það sem gefi mest hverju sinni. Hann óttast ekki áhrif svokallaðar helmingunar sem talin er verða í maí, þegar um helmingi minna af Bitcoin einingum byrja að fást fyrir sömu gagnavinnslu.