Framkvæmdastjórn ESB kynnir í dag tillögur um aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og um aðgerðir til að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku í Evrópusambandinu. Ætlunin er að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% til ársins 2020 miðað við 1990. Þetta kemur fram í frétt frá Samtökum Atvinnulífsins.

Eins er ætlunin að hlutur endurnýjanlegrar orku í sambandinu verði um 20% árið 2020. Samkvæmt tillögunum munu fleiri atvinnugreinar en áður falla undir viðskiptakerfi með útstreymisheimildir þar á meðal ál- og járnblendiiðnaður. Ætlunin er að sífellt stærri hluti heimilda verði boðinn upp en ekki úthlutað án endurgjalds. Orkuverð mun því halda áfram að hækka í ESB vegna þessarar skattlagningar og verð á vörum og þjónustu mun jafnframt hækka.

Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir hugsanlegum aðflutningsgjöldum á vörur sem framleiddar eru utan ESB en falla undir viðskiptakerfið ef framleiðslan á sér stað innan ESB.