Rússneska gasfyrirtækið Gazprom leggur til að gasverð til Gerorgíu verði tvöfaldað, frá og með 2007, segir í frétt Financial Times.

Talsmenn Gazprom segja að fyrirtækið muni fara fram á að Gerorgía muni greiða um 15.500 krónur fyrir hverja þúsund rúmmetra af gasi, en Georgía greiðir nú um 7.400 krónur.

Georgía, sem nú glímir við mikla fátækt, þarf samkvæmt þessu að greiða svipað verð og margar af ríkari þjóðum Evrópu.

Viðskiptaráðherra Georgíu, Kakha Bendukidze, segir að ljóst sé að ekki sé um markaðsverð að ræða og að ákvörðunin væri pólitísk. Georgía er mjög háð Rússlandi um útflutning og innflutning. Samskipti þjóðanna hafa verið óstöðug síðan Mikhail Saakashvili tók við forsetaembætti Georgíu.

Bann hefur verið lagt við útflutningi á víni og vatni frá Georgíu og gefur Rússland upp heilsufarsástæður fyrir því.