Samningur HS Orku við Íslenska kísilfélagið ehf. um tímabundna sölu á 30 MW af orku í nýtt kísilver í Helguvík er ekki bundinn við þróun álverðs. Því fær orkufyrirtækið mun hærra verð fyrir þessa orku en það fékk áður fyrir hana. Þetta kemur fram á heimasíðu Magma Energy Corp, eiganda HS Orku.

Orkan sem um ræðir verður aðgengileg frá og með næsta hausti en þá rennur út samningur HS Orku við Norðurál í Grundartanga um að sjá álverinu fyrir um 35 MW af orku. Orkuveita Reykjavíkur er að taka við þeirri orkusölu. Nýi samningurinn, sem var undirritaður 17. febrúar síðastliðinn, er talinn vera 20 milljóna dala virði, um 2,5 milljarða króna, fyrir HS Orku. Í stað þess að verðið sé tengt við þróun álverðs þá er samið um fast grunnverð sem hækkar síðan árlega.