Markaðsaðilar innanlands sem utan vænta þess að framundan sé örlagahelgi í íslensku viðskipta-og efnahagslífi. Viðskiptablaðið hefur undir höndum tölvupóst frá Beat Siegenthaler, greinanda TD Securities sem hefur fjallað mikið um Ísland. Siegenthaler hefur verið hér á landi að undanförnu og meðal annars fundað með Seðlabanka Íslands og forsvarsmönnum viðskiptabankanna.

Í tölvupóstinum kemur fram að Seðlabankinn sé að skoða ýmsar leiðir til að auka flæði erlends gjaldeyris inn í landið og að aðgerða væri að vænta mjög fljótlega. Miklar væntingar eru sagðar meðal bankamanna að eitthvað verði tilkynnt um helgina. Í pósti Siegenthaler er þeirri skoðun lýst að líklegast sé að Seðlabanki Íslands nálgist nú samkomulag við seðlabanka Norðurlandanna.

Mikil óánægja með Seðlabankann

Mikil gremja er sögð meðal aðila á fjármálamarkaði hérlendis. Lýst er undrun á hversu beiskir markaðsaðilar séu í garð Seðlabankans, og að meira að segja sé þrýstingur frá íslenskum fjármálamarkaði að bankastjórn segi af sér. Skortur á gagnsæi og almannatenglsum undanfarna daga hefur ekki aðeins grafið undan trúverðugleika íslensku krónunnar, heldur Seðlabanka Íslands sem stofnun.

„Viðræður milli Seðlabankans, ríkisstjórnarinnar og viðskiptabankanna virðast standa stöðugt yfir,” segir í póstinum. „Við teljum jafnframt að samskipti við norræna seðlabanka séu mikil núna, og vænta má meiri stuðnings úr þeirri átt. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki veitt þann stuðning nú þegar, er að þeir vænta samstarfs við Seðlabanka Evrópu í öllu falli,” segir Siegenthaler.

Traustið á krónuna endanlega horfið?

Því er velt upp í tölvupóstinum hvort traust á íslensku krónuna muni myndast aftur til meðallangs tíma, og hver áhrif á verðbólgu yrði. „Gerandi ráð fyrir því að bankarnir lifi af í einhverri mynd, sem er ennþá líklegri kosturinn, mun kastljósið þó beinast að hagkerfinu í heild sinni. Alvarlega hefur verið grafið undan trausti á krónunni. Það er vafamál hvort til langs tíma verði hægt að byggja upp trúverðugleika á ný, og eini valkosturinn til langs tíma gæti verið að taka upp evruna. Verðbólgan er hitt stórmálið. Hún mun líklegast fara yfir 20% á næstu mánuðum, færandi verðbólgumarkmiðið enn lengra úr augnsýn.“

Aðildarumsókn að ESB myndi tefja vaxtalækkun

Í tölvupóstinum segir að mikil óvissa sé um næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, enda hefur bankinn sent frá sér blendin skilaboð. „Hins vegar ef að Evrópusambandsaðild og upptaka evru yrði ákvörðun stjórnvalda, þá þyrfti að halda vöxtum háum til að ná verðbólgumarkmiðinu fram sem fyrst."

Siegenthaler telur að allir á Íslandi geri sér grein fyrir að hjálp frá utanaðkomandi aðila er nauðsynleg, og það strax. „Stjórnvöld átta sig líka á þessu. Við búumst við því að einhvers konar björgunarpakki verði útvegaður um helgina, sérstaklega í ljósi þess að norrænu seðlabankarnir eru ólíklegir til að neita um hjálp. Ef þessar væntingar standast ekki, má ljóst vera að mánudagurinn verður virkilega erfiður dagur á Íslandi.“