Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag eftir að stýrivextir héldust óbreyttir bæði á evrusvæðinu og í Bretlandi.

Bankar og fjármálafyrirtæki lækkuðu nokkuð. Sem dæmi má nefna að svissneski bankinn UBS lækkaði um 5,1%, austurríski bankinn Raiffeisen um 7,8% en franski bankinn Societe Generale og breski bankinn Barclays lækkuðu um 2,5%.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,1% en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst námu- og orkufyrirtæki sem komu í veg fyrir frekari lækkun.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,15% og í Frankfurt stóð DAX vísitalan í stað. Þá lækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 0,1% og í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4%.

Staðan var þó nokkuð betri á Norðurlöndum en í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,9% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,2%.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 1,6% það sem af er þessum mánuði en hafði hækkað um 6% í apríl sem var best mánuður hennar frá október 2006. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 10% það sem af er ári og 17% frá því að hún náði hámarki í júlí í fyrra.