Stjórnvöld í Noregi samþykktu í gær björgunarpakka upp á sex milljarða norskra króna til að koma til móts við flugfélögin sem starfa í landinu sem hafa eins og önnur flugfélög orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Björgunarpakkinn felst í því að norska ríkið mun veita ríkisábyrgðir á lánum og munu 3 milljarðar fara til lágfargjaldaflugfélagsins Norwegian, 1,5 milljarðar til SAS og og 1,5 milljarðar til Widerøe og annarra minni flugfélaga. Upphæðin til SAS kemur til viðbótar við 3 milljarða sænskra króna ríkisábyrgðir danskra og sænskra stjórnvalda frá því á þriðjudag.

Sjá einnig: Norwegian rambar á barmi gjaldþrots

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á mánudag er lausafjárstaða Norwegian orðin verulega slæm auk þess sem hún var ekki góð áður en kórónuveiran barst til Evrópu. Til þess að fá ábyrgðirnar þurftu flugfélögin að hafa að minnsta kosti 8% eiginfjárhlutfall um síðustu áramót. Þetta skilyrði uppfylla bæði SAS og Widerøe á meðan Norwegian uppfyllir það ekki enda var eiginfjárhlutfall þess 4,8% um síðustu áramót og laust fé um 3,1 milljarður norskra króna.

Norwegian mun fá 300 milljóna ábyrgðir strax að því gefnu að lánardrottnar leggi til 30 milljónir en til þess að fá alla 3 milljarðana þarf félagið að semja við lánardrottna um afborgunum og vaxtagreiðslur af lánum verði frestað um þrjá mánuði.

Mögulega of lítið

Í frétt Reuters er vitnað í minnisblað skrifað af Ole Martin Westgaard, greinanda hjá norska bankanum DNB, þar sem segir að pakkinn frá stjórnvöldum sé líklega of lítill þar sem hann myndi í besta falli duga fyrir kyrrsetningu alls flotans í einn og hálfan mánuð. Þá hefur hann einnig verulega efasemdir um að félagið geti sótt sér aukið fjármagn á vöxtum sem eitthvað vit er í.