Í kvöld mun breska þingið kjósa um útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra, úr Evrópusambandinu. Kosningin mun binda enda á langa og á köflum hatramma deilu um samninginn, en allskostar óvíst er hvað tekur við verði hann felldur. BBC fjallar um málið .

Eitt stærsta bitbein samningsins, sem upprunalega átti að kjósa um 10. desember – en May frestaði þeirri kosningu þegar fyrir lá að hann yrði felldur, og stóð í kjölfarið af sér vantraustskosningu innan eigin flokks – er hin svokallaða varaáætlun (e. backstop) í landamæramálum Norður-Írlands. May benti í því sambandi á nýfengnar fullvissanir frá Evrópusambandinu þess efnis að bráðabirgða-tollafyrirkomulagið sem í varaáætluninni felst yrði tímabundið, og ef til þess kæmi yrði það látið vara „eins stutt og mögulegt er“.

Í ávarpi sínu til þingsins sagði May samningnin ekki vera fullkominn, „en þegar sögubækurnar eru skrifaðar mun fólk líta til ákvörðunar þessa þings og spyrja sig, ‚stóðum við við ákvörðun þjóðarinnar um að yfirgefa Evrópusambandið, gerðum við það sem við gátum til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, öryggi og hagsmuni samlanda okkar? Eða brugðumst við bresku þjóðinni?“