Samsung mun í þessari viku í samstarfi við farsímasöluaðilann Carphone Warehouse setja á markað farsíma með átta megapixla myndavél. Innbyggðar myndavélar í farsíma verða nú sífellt betri, sem gæti endanlega ráðið niðurlögum stafrænna myndavéla.

Síminn heitir i850 og verður beinlínis markaðssettur til höfuðs venjubundnum myndavélum. Hingað til hafa bestu farsímamyndavélarnar verið í mesta lagi fjórir til fimm megapixlar, og því er um miklar framfarir að ræða.

Talið er að i850 muni veikja sterka stöðu iPhone á farsímamarkaðnum, en myndavélin sem er innbyggð í síðarnefnda símann er „aðeins“ tveir megapixlar.

Sony Ericsson hyggur á sölu á síma með myndavél með 8,1 megapixla upplausn. Framleiðendurnir LG og Nokia eru einnig með síma með öflugar myndavélar í burðarliðnum.

Til marks um hnignun stafrænnu myndavélarinnar sökum uppgangs myndavélasíma er dapurt gengi myndavélasöluaðilans Jessops í Bretlandi, sem sendi út afkomuviðvörun á dögunum. Forstjóri Jessops segir þó að farsímamyndavélar skorti ýmsa eiginlega venjubundinna myndavéla, svo sem aðdráttarlinsu, sem myndi halda forskoti myndavélanna áfram um hríð.