Örlygur Hnefill Örlygsson hefur verið ráðinn ritstjóri netmiðilsins Akureyri.net og tekur við starfinu frá og með deginum í dag. Vefurinn hefur verið í lægð undanfarna mánuði eftir að Helgi Már Barðason fyrrum ritstjóri lét af störfum í kjölfar bankahrunsins á haustdögum 2008.

Í tilkynningu segir að nú sé blásið til sóknar með ráðningu nýs ritstjóra.  Örlygur hefur starfað sem blaðamaður og pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu og vann einnig um skeið fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Lesendur Akureyri.net geta búist við nokkrum breytingum á síðunni á næstu vikum.

Meðal nýrra liða sem brátt munu líta dagsins ljós eru myndskeið með staðbundnum fréttum frá Akureyri. Þá er stefnan að opna umræðuvef á haustmánuðum þar sem bæjarbúar geta skipst á skoðunum um málefni líðandi stundar.