„Svisslendingur hefur verið með ána á leigu í fimmtán ár,“ segir Höskuldur Þorsteinsson á Höfða á austanverðri Melrakkasléttu, sem er í forsvari fyrir veiðiréttarhafa í Ormarsá á Sléttu. Veiðifélagið auglýsti ána til leigu fyrir stuttu þegar samningar náðust ekki við Svisslendinginn. Verður hún leigð frá og með sumrinu 2011.

Höskuldur segir að áin hafi í raun ekki verið opin Íslendingum og því kærkomið að opna hana öðrum en þeim sem hafa keypt leyfin í gegnum Svisslendinginn Ralph Doppler. Þeir sem til þekkja við Ormarsá segja umhverfið ægifagurt. Áin sé býsna vatnsmikil og renni meðfram hrauni og austanmegin séu mýrar og móar. Langt sé í byggð og veiðimenn því einangraðir, sem er mjög eftirsóknarvert í hugum margra.

Höskuldur segir að samstarfið við Doppler hafi gengið ágætlega en þegar hann vildi lækka leiguverðið um helming hafi slitnað upp úr því. Skýringin hafi verið sú að krónan hafi lækkað mikið gagnvart svissneska frankanum, sem var sá gjaldmiðill sem leigan var greidd með.

Veiðifélag Ormarsá gerði fyrst samning við Doppler árið 1995. Innifalið í þeim samningi var bygging veiðihúss á kostnað leigutaka. Í tíu ár dróst afborgun af húsinu frá leiguverðinu sem Doppler greiddi. Endursamið var til fimm ára 2004 en nú er útlit fyrir að Svisslendingurinn missi ána.   Í veiðihúsinu eru fjögur tveggja manna herbergi og aðstaða ágæt fyrir veiðimenn.

230 laxar í fyrrasumar

Höskuldur segir að í fyrrasumar hafi 230 laxar komið á land úr Ormarsá. Alls séu fjórar stangir leyfðar og heildarstangadagar því um 240. Hins vegar hafi hún ekki verið leigð alla dagana og vel hvíld á milli. Í fyrrasumar hafi til dæmis enginn verið í ánni þrjár bestu vikur sumarsins.

Hann segir ána um 38 km langa en aðallega sé veitt fyrstu 20 km frá sjó. Inni á heiðinni sé mikið af silungi sem lítið hefur verið reynt við í gegnum árin. Þarna séu því mikil tækifæri fyrir þá sem hafa gaman af silungnum.

Það er varla skroppið í Ormarsá frá Reykjavík á einum degi. Lengra frá höfuðborgarsvæðinu er varla hægt að komast á Íslandi. Vegalengdin er um 750 km en frá Akureyri eru 250 km.