Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Air, segir hækkandi eldsneytisverð hafa verið meginástæðuna fyrir lakari afkomu á árinu 2011 en áætlanir gerðu ráð fyrir. Félagið skilaði samt sem áður 69 milljóna króna hagnaði á árinu.

Fyrir utan miklar eldsneytishækkanir þá hafði óróinn í Norður-Afríku einnig á rekstrarafkomu Primera Air árið 2011 því félagið þurfti að flytja alla sína farþega heim eftir að utanríkisráðuneyti Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs gáfu út tilskipun þar um í febrúar 2011. „Þá þurftum við að senda okkar vélar niður eftir og flytja fólkið heim. Þetta kostaði félagið örugglega yfir tvær milljónir dollara,“ segir Andri en hann segir sveigjanleika flugfélagsins þó hafa gert það að verkum að mögulegt var að bregðast fljótt við og beina ferðalöngum frekar til Kanaríeyja. Á þeim tíma sem þetta ástand kom upp var félagið með allt upp í 12 ferðir á viku til Egyptalands.

Andri segir að nú sé flug til Egyptalands að færast í aukana á ný. „Það lagðist af í byrjun árs 2011 og veturinn í fyrra var þungur. Það var kannski 35% af því sem við vorum vön en núna erum við komin upp í um 60% af því sem við vorum með fyrir tveimur árum,“ segir Andri um ferðamannastrauminn til Egyptalands að undanförnu.