Það er gömul þjóðsaga í ítölskum stjórnmálum um skuggaklefann að baki öllu valdinu, þar sem allir þræðir koma saman og aðeins hinar útvöldu auðfjölskyldur og innvígðu klíkubræður komast að til þess að halda um hinu raunverulegu stjórnarþræði, toga í spotta til þess að láta hitt og þetta gerast í stjórnmálum jafnt og atvinnulífi. Sem væri kannski ekki alslæmt ef skuggaklefinn virkaði, en það gerir hann nú ekki frekar en svo margt annað í inniviðum stjórnskipulags Ítalíu.

Gremja vegna hins vanvirka stjórnkerfis hefur grafið um sig um marga áratuga skeið, en um hríð bundu Ítalir miklar vonir við að Evrópusambandið (ESB) myndi bæta það, innleiða stjórnarhætti norðar úr álfunni og uppræta fyrirgreiðsluspillinguna. Þær vonir rættust ekki, en hugsanlega hafa þær væntingar um ESB gert óbeit Ítala á sambandinu enn meiri í harðæri fjármálakreppu og evrukreppu. Og aldrei sem nú.

Þó að það hafi loks tekist að lemja saman ríkisstjórnarlista á Ítalíu, sem er bæði þingi og forseta boðlegur (að ekki sé minnst á yfirvaldið í Brussel), þá er ekki allt fallið í ljúfa löð í ítölskum stjórnmálum. Öðru nær sennilega.

Andúð á ESB

Ítalía er þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins, en upp á síðkastið hafa vinsældir bæði Evrópusambandsins og hins sameiginlega gjaldmiðils minnkað ört. Nú er svo komið að 56% Ítala segjast „enga trú“ hafa á stofnunum ESB og aðeins 34% segjast hafa einhverja trú á þeim. Það er mikil breyting á skömmum tíma, en Ítalir voru lengi ákafir stuðningsmenn Evrópusamrunans og þreyttust ekki á að minna á það hvar Rómarsáttmálinn, stofnskrá ESB, var undirritaður árið 1957.

Áður hafði örlað á andstöðu við ýmis stefnumál og aðferðir ESB, líkt og í flestum ríkjum sambandsins, en það beindist aldrei gegn Evrópusamrunanum sem slíkum. Síðastliðinn áratug hefur andúðin hins vegar vaxið mjög. Fyrst vegna beinna áfalla fjármálakreppunnar, en svo vegna spennitreyju evrunnar, sem festi landið í efnahagslægð með gríðarlegu atvinnuleysi, sem erfitt er að sjá hvernig það geti losnað úr án verulegra breytinga á öllu fjármálakerfi ESB, skuldabandalagi o.s.frv. (vísbending: Auf keinen Fall!)

Ekki síður var það þó flóttamannavandinn sem hreyfði við mörgum Ítölum. Yfir Miðjarðarafið streymdu skyndilega hundruð þúsunda flóttamanna og ekki færri í gegnum Balkanskaga og yfir Adríahaf, sem landið átti afar erfitt með að taka við, fæða og klæða, en flestum þótti Evrópusambandið engan veginn standa sig í sérstökum stuðningi vegna þessa ógnarvanda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .