Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), leggur áfram hart að flugfélaginu Play í skrifum sínum, en Play tilkynnti í fyrradag að til stæði að ráða í 150 ný störf flugliða og flugmanna fyrir næsta vor. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir samtökin ganga fram með órökstuddar dylgjur.

Í pistli sem ASÍ birti í dag segir Drífa meðal annars að flugfélagið sé byggt á grunni kjara undir lágmarkslaunum og að undanfarnar vikur og mánuði hafi hún ítrekað fengið óskir um liðsinni frá starfsfólki Play og ábendingar um slæman aðbúnað þess. Þá hafi henni borist nafnlaus bréf frá fólki sem „óttast afleiðingar af því að koma fram undir nafni".

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr á árinu, hafa fullyrðingar ASÍ um kjör flugliða Play og útreikningar sem sambandið hefur birt opinberlega ekki staðist skoðun, en ASÍ hefur ekki brugðist við þeirri gagnrýni.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að engar kvartanir hafi borist til félagsins vegna kjara eða meints slæms aðbúnaðar starfsfólks, hvort heldur sem er frá starfsfólki, stéttarfélögum eða ASÍ.

„Hér starfa um 50 áhafnarflugliðar og tæplega 30 flugmenn og það eru mjög tíðir samráðsfundir og góður andi í hópnum. Ef það væri einhver óánægja þá er starfsfólkið í löglegu stéttarfélagi og hefur þar leiðir til að koma óánægju á framfæri, ef hún væri til staðar. Þessi skrif ASÍ eru komin út í dylgjur og rógburð - stéttarfélagið er löglegt og kjarasamningurinn er löglegur, það sem ASÍ heldur fram um launakjörin stenst enga skoðun og eftir standa bara einhverjar órökstuddar dylgjur," segir Birgir.

ASÍ í hagsmunagæslu

Hann segir skrif Drífu og ASÍ í garð félagsins nú sem fyrr snúast um hagsmunagæslu. ASÍ hefur farið fram á það að Play semji við Flugfreyjufélag Íslands en Play hefur samið við Íslenska flugstéttafélagið, líkt og WOW air gerði.

„Þetta snýst einfaldlega um það að flugliðarnir okkar eru ekki í ASÍ. Það er aldrei verið að tala um flugmennina vegna þess að flugmenn eru almennt ekki í ASÍ, og ég heyri ekki orð frá FÍA sem er alveg hliðstætt félag. Þetta mál snýst í grunninn um forgangsréttarákvæðið í kjarasamningnum. Þau hjá ASÍ hafa reynt að sýna fram á það að við séum með einhvern ólöglegan kjarasamning við ólöglegt stéttarfélag en það stenst enga skoðun. Við erum með fullkomlega löglegan samning með forgangsréttarákvæði, alveg eins og er að finna í samningum Icelandair, og ef ASÍ er ósátt við það þá þurfa þau einfaldlega að fara með málið í lagalegan farveg í stað þess að reka málið með órökstuddum dylgjum í fjölmiðlum. Mér þykja þessi vinnubrögð Alþýðusambandi Íslands ekki sæmandi - manni fallast bara hendur yfir þessu," segir Birgir.

Vel á annað þúsund umsóknir

Inntur eftir því hvort aðför ASÍ að Play hafi haft áhrif á félagið, segir Birgir svo ekki vera. „Þetta virðist hvorki hafa áhrif á eftirspurn eftir flugmiðum né störfum hjá Play. Við erum að auglýsa eftir flugliðum núna og það eru komnar vel á annað þúsund umsóknir rúmum sólarhring eftir að við auglýstum og enginn starfsmaður hefur hætt vegna kjaramála, þannig að við áttum okkur með engu móti á því hvert þessi góðu samtök eru að fara með þessu."