Á hluthafafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf. í gær var samþykkt tillaga um að nafn félagsins verði héðan í frá Icelandic Group hf. Stjórn félagsins var kjörin og í henni sitja Baldur Guðnason, Hreggviður Jónsson, Jón Kristjánsson, Þór Kristjánsson og Þórður Már Jóhannesson. Í varastjórn voru kjörnir Finnbogi Jónsson, Egill Tryggvason, Páll Þór Magnússon, Sigurður Ágústsson og Skúli Valberg Ólafsson.

Að loknum hluthafafundi hélt ný stjórn sinn fyrsta fund og var Jón Kristjánsson kjörinn formaður stjórnar og Þór Kristjánsson varaformaður. Þá ákvað stjórnin að ráða Þórólf Árnason, verkfræðing, sem forstjóra Icelandic Group hf. Þegar hefur verið gerður starfslokasamningur við fráfarandi forstjóra félagsins, Gunnar Svavarsson, og eru honum þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins.

Fyrir stjórn liggja áform um umfangsmikla stefnumótun í kjölfar sameiningar Icelandic Group hf. og Sjóvíkur ehf. en samruni þeirra var staðfestur fyrr í dag.. Að þeirri vinnu lokinni verða niðurstöður kynntar.

Þórólfur Árnason er vélaverkfræðingur frá HÍ. Hann lauk jafnframt framhaldsnámi í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn þar sem lokaverkefni hans fjallaði um framleiðsluaðferðir í fiskiðnaði. Þórólfur hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum og stjórnun. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Marel í sex ár og sama starfi gengdi hann síðar hjá Olíufélaginu hf. Hann varð fyrsti forstjóri Tals hf. og síðar borgarstjóri í Reykjavík á árunum 2003 ? 2004. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum auk þess hann hefur setið í stjórnum nærri tuttugu fyrirtækja og stofnana. Þórólfur er giftur Margréti Baldursdóttur og eiga þau tvö börn.

Icelandic Group hf. rekur framleiðslu- og sölufyrirtæki á sviði sjávarafurða í Evrópu, USA og Asíu. Starfsmenn eru samtals um 3000, flestir í Norður-Ameríku og Bretlandi. Áætluð velta fyrirtækisins á árinu 2005 er rúmlega 90 milljarðar króna eða um1,1 milljarður evra.