Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, og Sigurjón Pétursson, framkvæmdastjóri Landssteina Strengs, munu ekki starfa hjá sameinuðu fyrirtæki Skýrr, Landsteina, Eskils og Kögunar.

Þetta staðfestir Gestur G. Gestsson, nýskipaður forstjóri hins sameinaða félags sem mun starfa undir merkjum Skýrr. Hann var einnig gerður að forstjóra Teymis, móðurfélags Skýrr,  í síðustu viku.

Sigrún Eva Ármannsdóttir, sem var framkvæmdastjóri Eskils og Bjarni Birgisson, sem var framkvæmdastjóri Kögunar munu áfram starfa hjá hinu sameinaða fyrirtæki. Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi frekari skipulagsbreytingar hjá öðrum eignum Teymis, svo sem Vodafone, Tal og EJS.

Minniháttar uppsagnir

Gestur segir að minniháttar uppsagnir verði á starfsfólki við sameininguna. Þar sem skörun er á starfsemi fyrirtækjanna mun þurfa að hagræða. Gestur segir ástæðu þess að hann sest sjálfur í forstjórastól hins sameinaða Skýrr vera þá að þetta sé stærsta verkefni Teymis.

„Þetta nýja félag, Skýrr, er stórt og umfangsmikið verkefni sem er mikilvægt að fari vel. Þetta er langumfangsmesta verkefnið sem er á borði Teymis. Þar af leiðandi einhenti ég mér í að taka þetta verkefni að mér. Nafnið Skýrr er notað á hið sameinaða fyrirtæki vegna þess að það er bæði elsta og stærsta fyrirtækið af þessum fjórum.“