Greining sú sem hér hefur farið fram á þróun verðbréfaviðskipta á Íslandi á tímabilinu frá 2004 og fram til hruns bankanna í október 2008 hefur leitt í ljós ýmsa misbresti á uppbygginu verðbréfamarkaða hér á landi og gefur til kynna að markaðurinn hafi á margan hátt verið óþroskaður.

Þetta segir í upphafi niðurstöðukafla Rannsóknarnefndar Alþingis um íslenska hlutabréfamarkaðinn á árunum 2004 fram til hrunsins í október 2008. Megindrifkraftar ævintýralegrar útþenslu markaðarins, þeirri mestu meðal þróaðra hagkerfa í heiminum, voru skuldsett kaup á hlutabréfum í bönkunum, Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum.

Þessi skuldsetning er sögð hafa falið áhættur og aukið á óstöðugleika fjármálakerfisins. Frá því í upphafi árs 2004 og fram að því að úrvalsvísitalan náði sínu hæsta gildi, 9.018 stig í júlí 2007, nam hækkunin alls 328,76% sem er „einsdæmi meðal þróaðra hagkerfa eins og samanburðurinn við erlendar vísitölur sýnir glöggt“ eins og orðrétt segir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Skörp hækkun í júlí 2007 kom m.a. fram vegna stærstu einstaka viðskipta með hlutabréf í Íslandssögunni, þegar Björgólfur Thor Björgólfsson yfirtók Actavis í tæplega 300 milljarða króna viðskiptum. Fyrirferð bankanna gríðarleg Á árunum 1985, þegar Verðbréfaþing Íslands var stofnað og fram til ársins 2000, fjölgaði fyrirtækjum sem skráð voru á markað umtalsvert og voru þegar mest lét 75.

Frá árinu 2000 fór hlutabréfamarkaðurinn að einkennast af samþjöppun, sameiningum og ört stækkandi fjármálageira. Viðskipti með bréf í bönkunum voru langsamlega fyrirferðarmest, enda stækkuðu þeir ört, ekki síst vegna mikilla útlána til kaupa á bréfum í bönkunum sjálfum.

Á árunum 2004 til og með meirihluta árs 2008 var hluti viðskipta með hlutabréf viðskiptabankanna þriggja aldrei undir 70% af heildarumfangi. Hlutfallslega mest voru viðskipti með bréf í bönkunum árið 2005 en þá voru þau 80,3% af heildarviðskiptum, að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Hlutdeild Kaupþings í þessum viðskiptum var öll árin mest en þar á eftir komu Glitnir og Landsbankinn.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .